Jehóva – Nafn Guðs

 

 

Faðir vor,

þú sem ert á himnum,

Helgist þitt nafn

 

Ef unglingur i fermingarundirbúningi tekur upp á því að spyrja prestinn, hvaða nafn það sé, sem við eigum að helga, skv. Faðirvorinu, þá væri gaman að heyra svarið frá þjóni kirkjunnar.

 

Þegar íslenzku biblíunni er flett, þá rekst maður aldrei á nafn Guðs, en samkvæmt Hinum hebresku ritum (GT), þá kemur nafn Jehóva 6973 sinnum fyrir. Reyndar ekki á Latínuletri, heldur á hebresku. Nafnið er kallað Tetragram og samanstendur af 4 stöfum úr hebreska letrinu [JHVH][i]. Seinna, er tímar liðu og menn voru ekki alveg vissir um framburðinn á tetragramminu, settu afritararnir (soferim seinna masoret nokkrar krúsidúllur inn í tetragrammið til að gera framburðinn sennilegan). Áður leit Tetragrammið út svona: [ii] . Það sem réð þessari þróun er auðvitað, að ritfæri og textaflötur urðu miklu þjálli fyrir afritarana.

 

Nafnið birtist fyrst í 1Mos. 1:1. Í 2 Mos.3: 14-16 er frásagan af því, þegar Moses gekk á fund Jehóva á Sínaífjalli. Sérstaklega versin 14-15. Þau hljóða svo skv. ísl Biblíunni:

 

14Guð svaraði Móse: „Ég er sá sem ég er.“ Og hann bætti við: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: „Ég er“ sendi mig til ykkar.“ 15Enn fremur sagði Guð við Móse: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: Drottinn, Guð feðra ykkar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, sendi mig til ykkar. Þetta er nafn mitt um aldur og ævi, heiti mitt frá kyni til kyns.

Í þessum versum, hafa þýðendur fellt niður nafn Guðs, en setja titilinn Drottinn í stað eiginnafnsins (tetragrammið), Jehóva (Jave).

 

Hér koma sömu vers, sótt í nýja þýðingu á Hinum helgu ritum á dönsku, en í þeirri útgáfu er nafn Guðs Jehóva, þar sem Tetragrammið kemur fyrir.

 

Så sagde Gud til Moses: „JEG VIL VÆRE DET SOM JEG VIL VÆRE.“*+ Og han tilføjede: „Sådan skal du sige til Israels sønner: ’JEG VIL VÆRE har sendt mig til jer.’“+ 15  Derpå sagde Gud yderligere til Moses:„Sådan skal du sige til Israels sønner: ’Jehova, jeres forfædres Gud, Abrahams Gud,+ Isaks Gud+ og Jakobs Gud,+ har sendt mig til jer.’ Dette er mit navn for altid,*+ og det vil jeg huskes ved* fra generation til generation.

 

Það fara nokkrum sögum af því hvernig á því stóð, að nafni Jehóva var breytt í ýmsum biblíuþýðingum seinustu alda. Reyndar er allur gangur á því, þar sem nokkrar veigamiklar þýðingar héldu nafni Jehóva í prentuðum útgáfum.

 

Ein kenning, sem hefur verið mjög lífseig, einkum vegna þess hversu erfitt er að sanna eða afsanna hana, er sú, að svo mikil helgi hafi hvílt yfir nafni Guðs, að ekki þætti viðeigandi að bera nafnið fram (tabu). Þetta er auðvitað ekki rétt, því meðan ísraelska þjóðin gat lesið Ritin jafn auðveldlega og við getum lesið dagblöðin nú á dögum, þá var þetta ekkert vandamál. En þegar fram liðu stundir og framburður breyttist, þá komu takmarkanir ritmálsins í ljós. Áður voru eingöngu samhljóðar skrifaðir, en nú vantaði sérhljóðana. Afritararnir og ýmsir spekingar þeirra tíma, reyndu að geta sér til um hvernig framburður ritmálsins ætti að vera og skutu inn í ritmálið ýmsum krúsídúllum, punktum og strikum, sem átti að gera lesendum kleift að lesa Ritin með „réttum“ framburði.

 

Á þessu ári eru 500 ár síðan Marteinn Lúter festi mótmæli sín gegn Aflátssölu katólsku kirkjunnar á kirkjuhurðina í Wittenberg. Það var upphaf mikillar sögu, sem ekki verður rakin hér, en Lúther hafði skoðun á nafni Guðs.

 

Lúther segir í einum af ritum sínu (útgefnu 1543): ”Þegar þeir (Gyðingarnir) staðhæfa, að ekki sé hægt að bera fram nafn Jehóva, hafa þeir ekki hugmynd um, hvað þeir segja….. Ef hægt er að skrifa það með bleki og penna, af hverju ætti þá ekki að vera hægt að bera það fram, en það er miklu einfaldara að skrifa það með penna og bleki? Þegar allt kemur til alls, þá er eitthvað vafasamt við þetta”.

 

Árið 1534 gaf Marteinn Lúther út Biblíuþýðingu sína úr frummálinu. Einhverra hluta vegna notaði hann ekki nafn Guðs Jehóva, (gæti verið að kostnaðarmaður útgáfunnar hafi haf eitthvað um það að segja), en setti í stað þess ýmsa titla eins og t.d. Herrann.  Hann þekkti aftur á móti nafn Guðs, því í predikun, sem hann flutti árið 1526, yfir textanum: Jeremías 23:1-8, sagði hann: ”Þetta nafn Jehóva, Herrann, tilheyrir eingöngu hinum sanna Guði”. Í þessum tilvitnuðu orðum leggur Lúther orðið Herrann að jöfnu við sérnafnið Jehóva. En svona fingurbrjótur er fyrirgefanlegur.

 

Aðeins þrisvar sinnum í sögu Biblíunnar hefur verið reynt að falsa textann.

Í fyrsta skipti á tímabilinu milli 4ðu og 2ar aldar fyrir tímatal okkar (f.t.o.), þegar óþekktir afritarar Hinnar Samaritönsku Pentateuch (Móses-bækurnar fimm) bættu textabrotinu: “…á Garizims fjalli. Og þar skalt þú byggja altari“ aftan við 2Mos. 20:17, í þeim tilgangi að safna sjóði til að byggja musteri á þeim stað; þar voru Samarítararir að verki. En það hefur borið við í gegnum tíðina, að fiktað hefur verið við Boðorðin tíu; ekki endilega til að fella niður eða breyta sjálfu boðorðinu, heldur til að festa athugasemdir við textann. Þessi fölsun slæddist síðan inni í hina gömlu latínuþýðingu Vulgata, en hefur verið fjarlægð úr öllum Biblíuþýðingum eftir að menn gerðu sér rein fyrir þessari fölsun.

Önnur fölsunin var sú að bæta við textann í 1Pet. 5:7 (Fyrra bréfi Péturs), til að réttlæta Þrenningarkenninguna. Alvarleg fölsun það.

En þriðja og víðtækasta fölsunin er þó sú, að dylja nafn Jehóva úr flestöllum Biblíuþýðingum á hin ýmsu tungumál. Það er auðvitað ekkert nema fölsun, að standa þannig að verki. Tetragramminu ýtt til hliðar 6973 sinnum!

Þess vegna væri gaman að vita hverju presturinn svarar hinu spurula fermingarbarni,  og hvernig hann útskýrir vísuorðið í Faðirvorinu.

Eins og augljóst er, þá er Herrann eða Drottinn (Adonaj eða Elíó) titlar en ekki sérnöfn. Og engum dytti í hug að leggja til að breyta Faðirvorinu í … Helgist þínir titlar… eða hvað?

Christian IV einvaldskonungur Dana og Íslendinga var merkileg persóna. Hann tók þátt í Þrjátíuára stríðinu, sem var trúarbragðastríð milli katólikka og mótmælenda á meginlandinu. Hann slapp nokkurn veginn óskaddaður úr þeim átökum, en Wallenstein hershöðingi keisarans lagði Holstein, og Jótland undir sig og rændi og ruplað af mikilli íþrótti. Christian IV tókst að ná sáttum við keisarann og fékk héruðin aftur í sinn hlut.

 

Aftur á móti verður hans líka minnst sem mikilvirks byggingameistara. M.a. lét hann byggja Rosenborgarhöll og bjó þar sjálfur, Kauphöllina í Kaupmannahöfn og ekki má gleyma Sivalaturni, sem var tákn Kaupmannahafnar lengi og að vissu marki enn í dag. Sívaliturn var kirkjuturn Trinitatiskirkjunnar við Kødmagergade (Købmagergade), en líka byggður sem stjörnuathugunarstöð (astronomisk observatorium), en á framhlið turnsins er myndgáta (rebur), sem konungur, lagði sjálfur frumdrögin að og byggingameistarinn van Steinwinckel sá um uppsetningu á.

 

 

Í þýðingu Björns Th. Björnssonar hljóðar myndgátan, sem er raunar bæn þjóðar til Guðs Jehóva: „Doctrinam et justitia (liggjandi sverð, sem táknar réttlæti); Dirige HVJH (hebraískir bókstafir,  Tetragrammið); In corde sanguineo coronati Christian quarti“ eða á íslenzku „Leið þú Jehova vísdóm og réttlæti inn í hið blóðrauða hjarta hins krýnda konungs Christians hins fjórða“.

Þessi myndagáta tekur af öll tvímæli um, að nafn Guðs, Jehóva, hefur verið alþekkt á þessum tíma meðal Dana.

 

Fyrsta hlutaþýðing Biblíunnar á dönsku sá dagsins ljós 1524 og var þýðingin gerð með hliðsjón af þýðingu Erasmusar frá Rotterdam og biblíuþýðingu Lúthers. Þýðandinn var fyrrv. borgarstjóri í Malmö Hans Mikkelsen. Biblían var kennd við Christian II konung. Reyndar var einungis um Nýja Testamenntið að ræða. Síðan kom Biblía Friðriks II konungs og að lokum kom Biblían, sem kennd er við Christian IV. Fyrsta danska Biblían, sem skipt var í kafla og vers. Það merkilega við Biblíuna var, að á titilblaði var Tetragrammið og reyndar líka mynd af Christian IV. Og af því má draga þá ályktun, að nafn Guðs, Jehóva, hefur verið alþekkt af alþýðu manna og notað, enda er mikill fjöldi bygginga og altarsitöflur með Tetragramminu og nafni Guðs.

 

Þegar allt þetta er haft í huga, þá er með ólíkindum, að nafn Guðs, Jehóva, hafi verið fjarlægt í íslenzku Biblíunni og titlar settir í staðinn. Er nú ekki kominn tími til að Hið íslenzka Biblíufélag og Biskupsstofa geri bót og betrun?

Það þætti tíðindum sæta, ef fregnir bærust um hinn kristna heim, að Þjóðkirkjan á Íslandi, hefði tekið upp fornan sið og látið tetragrammið njóta sín, og þjónar kirkjunnar taki sér nafn Guðs í munn í stað titla.

 

 

 

Slegin mynt frá tímum Christians 4.

 

Á myntinni má lesa:

„Justus JHVH Judex 1645“

eða: Jehova er réttlátur dómari

 

 

 

 

 

 

Skreyting í danskti kirkju.

 

 

 

 

 

[i] Nútíma tetragram

[ii] Gömulu æutgáfa í elztu handritum


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband